Almyrkvi á sólu 21. ágúst 2017 í Wyoming í Bandaríkjunum. Mynd: Sævar Helgi Bragason

Hvað sést á stjörnuhimninum yfir Íslandi árið 2026?

Almyrkvi á sólu, tunglmyrkvi og glæsilegar samstöður reikistjarna og tungls á stjörnuhimninum árið 2026

Árið 2026 verður frábært fyrir stjörnuáhugafólk. Hæst ber almyrkvi á sólu 12. ágúst 2026 og djúpur deildarmyrkvi á tungli tveimur vikum síðar. Í nóvember setja bjartar reikistjörnur, stjörnur og tunglið sterkan svip á morgunhimininn.

Fullt tungl árið 2026

Árið 2026 er tunglið fullt þrettán sinnum, tvisvar í maí.

  • 3. janúar, kl. 10:03 - Þriðja nálægasta fulla tungl ársins, 362.313 km frá Jörðu, nálægt Júpíter þetta kvöld
  • 1. febrúar, kl. 22:09
  • 3. mars, kl. 11:38
  • 2. apríl, kl. 02:12
  • 1. maí, kl. 17:23
  • 31. maí, kl. 08:45 - „Blátt tungl“ - seinna fulla tunglið í sama mánuðinum
  • 29. júní, kl. 23:57
  • 29. júlí, kl. 14:36
  • 28. ágúst, kl. 04:18 - Deildarmyrkvi á tungli
  • 26. september, kl. 16:49
  • 26. október, kl. 04:12
  • 24. nóvember, kl. 14:53 - Næst nálægasta fulla tungl ársins, 360.768 km frá Jörðu
  • 24. desember, kl. 01:28 - Nálægasta og því stærsta fulla tungl ársins, 356.740 km frá Jörðu, stundum kallað „ofurmáni“. Í jarðnánd kl. 08:30.

Jafndægur og sólstöður

  • Vorjafndægur: 20. mars kl. 14:46
  • Sumarsólstöður: 21. júní kl. 08:25
  • Haustjafndægur: 23. september kl. 00:06
  • Vetrarsólstöður: 21. desember kl. 20:50

Jörð næst og fjærst sólu

  • Jörð í sólnánd: 3. janúar kl. 17:16
  • Jörð í sólfirrð: 6. júli kl. 17.:31

3. janúar: Tunglið og Júpíter

Tunglið, Júpíter og Tvíburarnir að kvöldi 3. janúar 2025. Mynd: Stellarium

Árið hefst á fallegri samstöðu fulls tungls og Júpíters laugardagskvöldið 3. janúar. Við hlið tunglsins eru Tvíburarnir Kastor og Pollux áberandi. Í litlum stjörnusjónauka verða Galíleótunglin fjögur öll sjáanleg sömu megin við Júpíter.

Stefnumót tunglsins og Júpíters endurtaka sig mánaðarlega fram á vor, 31. janúar, 27. febrúar, 27. mars og 23. apríl. Líttu eftir þeim lágt á himni í norðvestri þessa morgna. Glæsilegt!

12. ágúst: Almyrkvi á sólu

Path of totality on August 12, 2026

Miðvikudaginn 12. ágúst 2026 verður fegursta sýning náttúrunnar, almyrkvi á sólu, sjáanlegur frá Vestfjörðum, Snæfellsnesi, Reykjavík og Reykjanesskaga. Austan við almyrkvaslóðina sést djúpur deildarmyrkvi.

Í Reykjavík er sól almyrkvuð í um eina mínútu frá 17:48 til 17:49 en það er breytilegt innan alskuggans. Sjá má nákvæmar tímasetningar, kort og allar upplýsingar á solmyrkvi2026.is Nældu þér í sólmyrkvagleraugu tímanlega á solmyrkvagleraugu.is.

Aðfaranótt 12. og 13. ágúst er loftsteinadrífan Persítar líka í hámarki. Þótt enn sé ekki fullkomið myrkur má sjá þónokkur stjörnuhröp yfir dimmasta tíma næturinnar, um og upp úr miðnætti. Samtímis má koma auga á silfurský og norðurljós ef jarðneskt veður og geimveður leyfa.

29. ágúst: Deildarmyrkvi á tungli

Tunglmyrkvi 14. mars 2025. Mynd: Eyþór Ingi Jónsson

Aðfaranótt miðvikudagsins 28. ágúst verður deildarmyrkvi á tungli sjáanlegur frá Íslandi, ef vel viðrar. Um djúpan deildarmyrkva er að ræða þar sem 93% af skífu tunglsins er innan alskuggans. Aðeins nyrsti hluti tunglsins er utan hans. Myrkvinn er í hámarki kl. 04:12.

Sjá ítarlegri upplýsingar hér.

5. október: Tunglið nálægt Mars og Býflugnabúinu

Tunglið og Mars 5. október skammt hjá Býflugnabúinu. Mynd: Stellarium

Full ástæða er til að taka daginn snemma að morgni mánudagsins 5. október. Þá verður minnkandi sigðarlaga tunglið steinsnar frá Mars og stjörnuþyrpingunni Messier 44 eða Býflugnabúinu í Krabbanum. Handsjónauki hentar sérstaklega vel til að berja dýrðina augum.

Morguninn eftir (6. október) verður tunglið við hlið Júpíters og 7. október við hlið Regúlusar í Ljóninu.

Mars, tunglið og Júpíter að morgni 6. október 2026. Mynd: Stellarium

Nóvember: Mars, Júpíter, Venus og tunglið stíga dans

Morgunhimininn í nóvember er sérlega áhugaverður. Mars, Júpíter og Venus skína þar skært auk minnkandi tungls. Mars og Júpíter eru í Ljóninu en Venus í Meyjunni.

Mars, Júpíter og Venus í Ljóninu að morgni 3. nóvember. Mynd: Stellarium

Morgnana 2. og 3. nóvember mynda tunglið, Mars, Júpíter og Regúlus í Ljóninu glæsilega röð hátt á suðurhimni um kl. 08:00. Tunglið er minnkandi sigð og að morgni 3. nóvember er Regúlus, skærasta stjarna Ljónsins, rétt fyrir ofan það. Júpíter er lang skærastur en Mars áberandi rauðgulur.

Venus, tunglið og Spíka að morgni 7. nóvember 2026. Mynd: Stellarium

Að morgni 7. nóvember verða Venus, tunglið og Spíka, skærasta stjarna Meyjarinnar, þétt saman. Hnettirnir eru þó mjög lágt á lofti í suðaustri og liggja einna best við athugun um kl. 08:00. Gæta þarf þess að hvorki fjöll né byggingar byrgi sýn, svo lágt á himni eru þau.

Venus hækkar á lofti og fjarlægist Spíka. Í kringum 15. nóvember bætist Merkúríus í hópinn, mjög lágt á lofti.

Merkúríus, Venus og Spíka að morgni 16. nóvember 2026. Mynd: Stellarium

Mars nálgast Júpíter næstu nætur á meðan tunglið lækkar á lofti og færist nær Venusi. Minnst verður bilið milli Mars og Júpíters mánudagsmorguninn 16. nóvember. Þá skilur aðeins ein gráða á milli þeirra. Prófaðu að beina stjörnusjónauka að þeim. Þá verður útsýnið í gegnum handsjónauka líka mjög fallegt.

Mars, Júpíter og Regúlus að morgni 16. nóvember 2026. Mynd: Stellarium

Stefnumót tunglsins við Mars, Júpíter og Regúlus endurtekur sig 30. nóvember. Þá hittir tunglið fyrir Venus og Spíka á morgunhimninum 4. og 5. desember.

Helstu loftsteinadrífur

Persítar og silfurský 12. ágúst 2025. Mynd: Gísli Már Árnason / Iceland at Night
  • 3.-4. janúar: Kvaðrantítar – Fullt tungl hefur áhrif á fjölda sýnilegra stjörnuhrapa en búast má við að innan tíu hröp sjáist á klukkustund í kringum hámarkið um og upp úr kl. 21 að kvöldi 3. janúar.
  • 21-22. apríl: Lýrítar – Þegar best lætur gætirðu séð um og yfir 10 stjörnuhröp á klukkustund í drífunni. Tunglið er vaxandi sigð og hefur engin áhrif. Hins vegar er ekki lengur fullkomið myrkur. Horfði í átt að stjörnumerkinu Hörpunni stundirnar í kringum miðnætti.
  • 12.-13. ágúst: Persítar – Oft ein besta loftsteinadrífa ársins. Við hámarkið geta sést um 100 stjörnuhröp en þar sem ekki er enn orðið fullkomlega dimmt um miðjan ágúst sjást einungis björtustu stjörnuhröpin nálægt miðnætti. Þau geta skipt örfáum tugum. Horfðu í norðausturátt.
  • 21-22. október: Óríonítar – Drífan er virk allan mánuðinn. Þegar hún er í hámarki má gera ráð fyrir að sjá um og yfir 15 stjörnuhröp á klukkustund. Þau eru þekkt fyrir að vera hraðfleyg og eiga rætur að rekja til halastjörnunnar Halley.
  • 4-5. nóvember: Tárítar – Drífan er virk allan mánuðinn og þekkt fyrir hæg, björt stjörnuhröp eða vígahnetti. Við hámarkið má búast við að sjá innan við tíu stjörnuhröp á klukkustund. Horfðu í átt að Nautinu nálægt miðnætti.
  • 16-17. nóvember: Leonítar – Drífan er virk nánast allan mánuðinn en við hámarkið má jafnan sjá í kringum tug stjörnuhrapa á klukkustund. Horfðu í átt að Ljósnmerkinu eftir miðnætti.
  • 13.-14. desember: Geminítar – Jafnan kröftugata loftsteinadrífa ársins yfir Íslandi. Þegar best lætur geta sést nokkrir tugir stjörnuhrapa á klukkustund. Horfði í átt að Tvíburunum nálægt miðnætti. Vaxandi tungl þetta kvöld hefur lítil áhrif.
  • 21-22. desember: Úrsítar – Fremur róleg loftsteinadrífa þar sem gjarnan sést um tugur stjörnuhrapa á klukkustund. Horfðu í átt að Karlsvagninum.

Reikistjörnur í gagnstöðu

Þegar reikistjarna er í gangstöðu (e. opposition) er hún í beinni línu við sólina og Jörðina. Þá rís hún í austri við sólsetur, er hæst á lofti í suðri um miðnætti og sest við sólris. Við gagnstöðu eru reikistjörnurnar næst Jörðu, skærastar á himni og liggja þá best við athugun.

  • 16. janúar: Mars
  • 21. september: Satúrnus
  • 23. september: Neptúnus
  • 21. nóvember: Úranus

Viltu læra meira?

Til baka