Það er sáraeinfalt að læra á norðurljósaspána. Með því að fylgjast með geimveðurgögnum og rýna í skýjahuluspána hámarkarðu líkurnar á að þú sjáir norðurljós. Smá þekking er allt sem þarf.
Ísland er einn besti staður heims til að sjá norðurljós. Það er þó ekki svo, að þau séu litrík og björt öll kvöld. Mikilvægt er að hafa í huga að engin leið er að spá fyrir um norðurljós með einhverri nákvæmni meira en 1-3 daga fram í tímann. Það er heldur engin leið til að spá fyrir um styrk norðurljósa meira en eina til tvær klukkustundir fram í tímann.
Áður en haldið er í norðurljósaferð er mikilvægast að líta á skýjahuluspána. Ef þú ætlar að elta göt í skýjahulunni er líka nauðsynlegt að kynna sér vel færð á vegum á umferdin.is
Til að sjá norðurljós þarf myrkur og heiðan himinn, að minnsta kosti ekki alskýjaðann. Þess vegna þarf að kíkja á skýjahuluspána sem fengin er hjá Veðurstofu Íslands.
Skýjahuluspáin sem við birtum sýnir öll skýjalögin samtímis, til hægðarauka. Lágský eru fjólublá, miðský rauð og háský græn. Heiðskír svæði eru auð.
Eru opnur í skýjahulunni eða er heiðskírt í nágrenni þínu? Hafðu í huga að háský eru gjarnan gegnsæ og trufla ekki norðurljósaskoðun mikið, nema tunglið sé fullt eða því sem næst. Ef tungl er á lofti getur háskýjaslæða myndað ákaflega fallegan rosabaug um tunglið.
Smelltu á Gervitungl til að bera skýjahuluspána saman við raunveruleikann. Stundum er spáin ekki fullkomlega rétt. Og að sjálfsögðu vinnur raunveruleikinn alltaf.
Hafðu einnig í huga að uppfærð skýjahuluspá birtist laust eftir kl. 18:00 að kvöldi.
Á hverjum degi rýnum við í geimveðurgögn og skrifum stutta samantekt um norðurljósaútlit kvöldsins.
Hafðu í huga að þessi samantekt gefur aðeins grófa mynd af því hvernig líklegt er að kvöldið líti út byggt á bestu mögulegu gögnum.
Er himinninn heiðskír eða því sem næst? Frábært! Þegar þú ert utandyra er mikilvægast að fylgjast vel með rauntímamælingum á geimveðri. Hunsaðu Kp-gildið. Af hverju? Lestu áfram.
Skoðaðu rauntímageimveðurgögn. Hversu hraður er sólvindurinn? Sé hraðinn meiri en 400 km/s er sólvindurinn hraður og líkur á ágætis kvöldi. Því hraðari sem vindurinn er, því betra.
Er þéttleikinn hár eða lágur? Lágur þéttleiki (nálægt núll) þýðir að litirnir verða líklegast ekki mjög áberandi. Áberandi litir fylgja gjarnan þéttleikagildum frá 5-10 og hærri.
HPI aflgildið (hemispheric power index) er rauntimavísir um hversu öflug norðurljósin verða eftir um það bil klukkustund. Því hærra sem gildið er, því öflugri verða norðurljósin.
HPI aflgildið er góður mælikvarði á því við hverju megi búast. Sé gildið innan við 50 GW verða norðurljósin dauf og veik. Verði gildið hærra en 200 GW stefnir í ákaflega gott kvöld. Fari gildið yfir 1000 GW verður kvöldið ógleymanlegt. Af því gefnu að Bz stefna segulsviðs sólvindsins sé líka í suður.
OVATION norðurljósalíkanið sýnir líkur á norðurljósum á himni yfir okkur. Beltið er venjulega grænt og fremur veikt en sé það þétt og breitt og glitti í rauðgult eða rautt er gott kvöld í vændum.
Þegar sólvindur skellur á Jörðinni hristist og titrar segulsvið Jarðar. Þessar truflanir eru mældar í Segulmælingastöðinni í Leirvogi. Engin öpp hafa aðgang að þessum staðbundnu mælingum sem eru ákaflega gagnlegar fyrir íslenska norðurljósaunnendur og ferðafólk á Íslandi. Líttu eftir titringi á grafinu. Þegar grafið hrekkur skarpt niður er norðurljósahviða að hefjast. Þá verða ljósin hve fallegust.
Að meðaltali er Ísland undir virkasta hluta norðurljósabeltisins í kringum kl 23 á kvöldin. Þess vegna mælum við með að þú sért á norðurljósavaktinni frá kl 22 til 01 eftir miðnætti eða svo. Stundum birtast norðurljósin fyrr eða seinna. Þess vegna er næsta skref svo mikilvægt.
Eru aðstæður góðar? Dimmt, HPI aflgildið hátt og sólvindurinn hraður? Næsta skref er það mikilvægasta: Bz-gildið.
Þegar músin er lögð yfir sólvindsgrafið koma fram upplýsingar eins og Skráningartími, Komutími, Bz-gildi og Bt-gildi.
Með því að rýna í gögnin sérðu hvenær norðurljós eru líklegt til að birtast á himninum á kvöldin. Með öðrum orðum, ef grafið er undir núlllínunni í einhvern tímann eru allar líkur á að þú sjáir falleg norðurljós birtast á himni.
Segjum sem svo að grafið sýni komutíma Bz suður gildis kl. 21:45. Þá ættirðu að líta eftir norðurljósum í kringum þann tíma. Ef Bz gildið er jákvætt norður eru allar líkur á að slökkt sé á norðurljósunum eða þau sé í besta falli mjög dauf.
Lærðu að nota þetta og norðurljósaferðirnar verða miklu markvissari.
Þetta er besta leiðin til þess að spá fyrir um norðurljós allt að klukkustund fram í tímann.
Kp-gildið frá 0-9 er ekki gagnlegur mælikvarði fyrir norðurljósaunnendur á Íslandi. Satt best að segja er kvarðinn því sem næst gagnslaus. Kp-gldið er ekki norðurljósaspá og lýsir ekki styrk norðurljósa. Í besta falli getur Kp-gildisspá gefið grófa hugmynd hvers er að vænta.
Ísland er í norðurljósabeltinu. Það þýðir að norðurljós sjást frá Íslandi á hverju kvöldi eða því sem næst. Þegar sólvindur er hægur og Bz gildið lágt birtast norðurljós sem daufur, fölgrænn bogi lágt á norðurhimni. Þegar sólvindurinn er hraðari aukast segultruflanir, norðurljósin hækka á himni og litir verða meira áberandi. Á Íslandi þarf ekki miklar segultruflanir til þess að falleg norðurljós sjáist. Það á sér í lagi við í kringum jafndægur.
Alltof oft heyrum við af fólki sem ákvað að fara ekki út að skoða norðurljós því „norðurljósaspáin“ á vefsíðum og öppum sagði Kp-1 en missti af fallegri sýningu.
Geimveðurgögn í rauntíma eru miklu gagnlegri leið til að segja fyrir um hvers er að vænta. Það er nákvæmlega það sem þú ættir að beina sjónum að.
Skoðaðu skýjahuluspána og lærðu að rýna í geimveðurgögnin, sérstaklega Bz-gildið.
Mundu að klæða þig vel, sýna þolinmæði og njóta alls hins sem heiður næturhiminn hefur upp á að bjóða.
Já, fylgdu okkur endilega á Instagram og ekki hika við að tagga okkur á fallegum myndum.
Sævar Helgi Bragason er vísindamiðlari, fyrirlesari, rithöfundur, þáttastjórnandi og eigandi og ritstjóri icelandatnight.is og solmyrkvi2026.is.