Smástirnið (24090) Grindavík

Smástirni nefnt eftir Grindavík

Hróður Grindavíkur berst ekki aðeins um Jörðina heldur út í sólkerfið

Smástirni sem fannst árið 1999 hefur verið verið gefið nafnið (24090) Grindavík. Alþjóðasamband stjarnfræðinga, sem heldur utan um örnefni í sólkerfinu, samþykkti nafnið nú í ágúst eftir að bærinn komst í heimsfréttirnar í eldgosunum á Reykjanesskaga. (24090) vísar til raðnúmers smástirnisins í skrá Minor Planet Center.

Smástirnið fannst í Catalina Sky Survey verkefninu í Arizona í Bandaríkjunum þann 29. október árið 1999. Var því þá gefið tímabundna skráarheitið 1999 UY8.

Viðbót 1. september 2025

Sá sem stakk upp á nafninu er Þjóðverjinn Daniel Bamberger. Í tölvupósti til höfundar segir hann:

With the help of my friends at the Catalina Sky Survey in Arizona, I recently proposed to the International Astronomical Union (IAU) that an asteroid be named after the town of Grindavík. I'm excited to share that my proposal was accepted, and that the naming of asteroid 24090 Grindavík was officially announced today!

I chose this specific asteroid from the many minor planets discovered at Catalina for three reasons that tie it to the subject:

  1. It belongs to the Vesta family. Those are fragments of the large asteroid Vesta, whose composition closely matches that of terrestrial igneous rocks.
  2. Its number, which starts with 240, is a nod to Grindavík’s postal code.
  3. It regularly becomes bright enough to be photographed with small telescopes. This makes it accessible to amateur astronomers, of which I know some are among your viewers.
Smástirnið (24090) Grindavík

Hvar er (24090) Grindavík?

(24090) Grindavík er í smástirnabeltinu milli Mars og Júpíters. Meðalfjarlægð þess frá sólu er 2,3 stjarnfræðieiningar eða 345 milljónir kílómetra sem er rúmlega tvöföld fjarlægð Jarðar frá sólu.

Grindavík ferðast einn hring um sólina á 3,57 árum eða þremur árum, sex mánuðum og þremur vikum. Sporbrautin hallar um 5 gráður miðað við sporbraut Jarðar.

Hér er hægt að fylgjast með ferðalagi (24090) Grindavík í sólkerfinu.

Sporbraut (24090) Grindavík. Mynd: JPL Small-Body Database Lookup

Hvað er vitað um (24090) Grindavík?

Mjög lítið er vitað um (24090) Grindavík annað en sporbrautina sem er vel þekkt. Birta þess (15,1) og endurskinshlutfall (0,159) benda til þess að smástirnið sé í kringum 2,1 km á breidd. Endurskinshlutfallið bendir einnig til þess að smástirnið sé úr einhvers konar blöndu bergs og málma.

Grindavík á Jörðinni, Mars og smástirnabeltinu

Grindavík er þó ekki aðeins að finna á Jörðinni og í smástirnabeltinu, heldur líka Mars. Á norðurhveli rauðu reikistjörnunnar er 12 km breiður gígur sem ber nafn bæjarins. '

Gígurinn Grindavík á Mars. Mynd: HiRISE/NASA/JPL/MRO
Höfundur
Sævar Helgi Bragason

Sævar Helgi Bragason er vísindamiðlari, fyrirlesari, rithöfundur, þáttastjórnandi og eigandi og ritstjóri icelandatnight.is og solmyrkvi2026.is.

Til baka