
Einn af öflugustu segulstormum síðustu tuttugu ára olli glæsilegum norðurljósum sem sáust víða
Glæsileg, litskrúðug norðurljós skreyttu himininn yfir Íslandi og um víða veröld kvöldin 19. til 21. janúar 2026. Stormurinn var geysiöflugur en þó ekki sá öflugasti í tuttugu ár eins og víða er haldið fram. Geislunarstormurinn (e. radiation storm), sem gervitungl námu á undan, var sá öflugasti síðan 2003 en segulstormurinn (e. geomagnetic storm), sem leiddi til norðurljósanna, var einungis sá fjórði öflugasti í yfirstandandi sólblettasveiflu.
Klukkan 18:09 að íslenskum tíma þann 18. janúar 2026 varð öflugur sólblossi (e. solar flare) við virka sólblettasvæðið 4341. Blossinn stóð yfir í nokkrar klukkustundir og mældist X1,9 að styrkleika (X er hæsti styrkleikaflokkurinn). Geislunin frá honum olli fjarskiptatruflunum yfir Norður- og Suður Ameríku.
Sólblossinn þeytti af stað kröftugu kórónugosi (e. coronal mass ejection) og bentu líkön til að það myndi hæfa Jörðina aðfaranótt 20. janúar eða seinna þann dag. Segja mætti að kórónugos sé eins og sólin hnerraði af öllum lífs og sálarkröftum.
Að kvöldi 19. janúar (kl. 19:15) námu gervitungl róteindagusu frá kórónugosinu langt á undan áætlun. Hún olli mesta geislunarstormi sem mælst hefur síðan í október-nóvember 2003 (S4 á kvarða sem nær frá 1-5).
Aðaláhrif geislunarstorma af þessu tagi eru á geimfara, flugferðir við pólsvæði Jarðar, gervitungl og fjarskipti. Sem dæmi verða flugfarþegar fyrir mun meiri geislun en alla jafna, gervitungl geta slegið út og GPS leiðsagnarkerfi orðið fyrir verulegum truflunum. Engin áhrif eru á okkur sem erum á Jörðu niðri. Geislunarstormurinn olli ekki norðurljósunum.

Klukkan 19:30 að kvöldi 19. janúar skall kórónugosið á Jörðinni, aðeins um 25 klukkustundum eftir að hafa þeyst frá sólinni. Þetta er gríðarlega hratt því venjulega eru kórónugos þrjá til fjóra daga að berast til Jarðar.
Hraði gossins var nærri 1700 km/s, næstum 6 milljón km á klukkustund! Þetta er eitt allra hraðfleygasta kórónugos sem hæft hefur Jörðina undanfarin 30 ár. Langflest ferðast á innan við 1000 km/s en hraðametið á gos sem skall á Jörðinni 23. júlí 2012 á nærri 3000 km/s.
Fyrst um sinn bárust vindhraðamælingar ekki frá gervitunglum vegna truflana af völdum geislunarstormsins sem mettuðu mælitækin. En á himni var greinilegt að mikið gekk á.
Við áreksturinn við Jörðina hófst segulstormur sem náði hámarki um og upp úr kl. 21 að kvöldi 19. janúar. Stormurinn mældist Kp8+ eða G4+ á styrkleikakvarðanum yfir segulstorma. Milli kl 18 og 21 mældist staðbundna K-gildið í Leirvogi K-9 sem er mesti styrkur.
Norðurljósin urðu svona glæsileg vegna þess hve stormurinn var öflugur. Sjaldséði rauði liturinn varð svo áberandi vegna þess að stormurinn magnaði hann upp. Stormurinn varð þó ekki eins kröftugur og hann hefði getað orðið.
Kórónugos ferðast ekki aðeins mishratt, heldur eru þau líka misþétt og með eigin segulsvið sem eru missterk. Hve glæsileg norðurljósin verða veltur á þessum þáttum en þó einkum og sér í lagi norður-suður stefnu segulsviðs sólvindsins (kórónugossins í þessu tilviki), kallað Bz.
Þegar Bz-gildið er neikvætt (með suðurstefnu) nær sólvindurinn að opna segulsvið Jarðar og dæla orku inn í það, líkt og verið sé að hlaða rafhlöðu. Á endanum losnar orkan sem norðurljósahviður. Því lægra sem Bz-gildið er, því meiri orka hleðst upp í segulsviði Jarðar og því glæsilegri norðurljósum má búast við.

Segulsvið kórónugossins var að mestu mjög hagfellt fyrir glæsilega norðurljósasýningu. Sviðsstyrkurinn (Bt) náði 91 nanóTesla (kl. 21:24) sem var mun hærra en í G5 storminum mikla 10.-11. maí 2024 (öflugasta stormi yfirstandandi sólblettasveiflu) og G4+ storminum 10.-11. nóvember sama ár (46 nT).
Styrkurinn var sömuleiðis hærri en í Hrekkjavökustormunum í október-nóvember 2003 (63 nt og 40 nT) þegar álíka stórfengleg norðurljós sáust víða um heim.
Bz gildið var aftur á móti lengi vel jákvætt (sem er ekki gott) og varð hæst +81 nT (norður). Fyrir vikið urðu áhrifin minni en þau hefðu getað orðið – kannski sem betur fer. Lægst komst það í -26 nT (suður) aðfaranótt 20. janúar.
Leiða má líkum að því að hefði Bz gildi stormsins 19.-21. janúar verið lægra hefði stormurinn orðið sá langöflugasti í yfirstandandi sólblettasveiflu og líklega sá öflugasti síðan 13. mars 1989.
Myndin hér undir sýnir norðurljósasveiginn séðan utan úr geimnum.

Alls ekki. Við erum bara stödd í virkustu árum sólblettasveiflunnar (e. solar cycle).
Yfirstandandi sólblettasveifla (25) náði hámarki í nóvember 2024. Því er oft haldið fram að þá séu mestar líkur til þess að sjá norðurljós. Svo er ekki. Athuganir sýna að norðurljós eru mun tíðari eftir hámarkið, í niðursveiflunni, þar sem við erum stödd nú.
Í niðursveiflunni eru kórónugeilar algengari og stöðugri sem valda endurteknum norðurljósum. Þá eru virk sólblettasvæði enn algeng og valda kórónugosum sem hæfa Jörðina stöku sinnum.
Framundan eru því góð norðurljósaár fram að lágmarki í kringum árið 2030.
Þegar rýnt er í mælingar eru eftirfarandi segulstormar í sólsveiflu 25 öflugastir. Listinn miðast við 25. janúar 2026.
Sævar Helgi Bragason er vísindamiðlari, fyrirlesari, rithöfundur, þáttastjórnandi og eigandi og ritstjóri icelandatnight.is og solmyrkvi2026.is.
Gísli Már Árnason er stjörnuljósmyndari og annar af umsjónarmönnum Iceland at Night.