Ýmsir viðburðir í boði fyrir almenning, svo sem fyrirlestrar, pallborðsumræður um vísindaskáldskap og sýning um hella í geimnum og á Jörðinni
Dagana 1.-5. júlí 2025 fer fram önnur Biennial European Astrobiology Conference (BEACON), ráðstefna í stjörnulíffræði, í Hörpu í Reykjavík. Um stærstu evrópsku stjörnulíffræðiráðstefnuna er að ræða en hún er haldin annað hvert ár. Þar koma saman fremstu sérfræðingar heims á uppruna, þróun og dreifingu lífs í alheiminum. Ráðstefnan snýst þó ekki bara um rannsóknir, heldur gefst íslenskum almenningi kostur á að sækja ýmsa viðburði sem tengjast nýjustu uppgötvunum í stjörnulíffræði.
Mánudagurinn 30. júní, kl. 20:00: Opnunarhátíð BEACON ráðstefnunnar með frábærum gestum. BEACON ráðstefnan hefst í Hörpu kl. 20:00 þar sem Giovanna Tinetti hjá University College London kynnir ARIEL verkefnið sem hún leiðir. ARIEL er geimsjónauki sem skotið verður á loft árið 2029 og gera á stærstu rannsóknina til þessa á andrúmslofti meira en þúsund reikistjarna utan sólkerfisins. Að erindinu loknu verður sýnd stutt heimildarmynd, „Dark Biosphere“, í leikstjórn Javier Bollaín en þulur er Viggo Mortensen. Í henni fjallað um ótrúlegan fjölbreytileika örvera sem þrífast djúpt í jarðskorpunni við aðstæður sem ögra skilningi okkar á lífi. Hátíðinni lýkur svo með margmiðlunarsýningunni „Caves in the Skies“ þar sem stjörnulíffræðingurinn og tónlistarkonan Erica Biessi og sellóleikarinn og raftónlistarkonan Nicola Baroni flytja hljóðlistaverk með fulltingi leikkonunnar Maria Vittoria Barrella.
Miðvikudaginn 2. júlí, kl. 20:00: Bókakynning: Mars and the Earthlings. Reikistjarnan Mars heillar æ fleiri og benda nýlegar tilkynningar benda til þess að fána gæti verið flaggað þar innan næstu fjögurra ára. Bókin „Mars and the Earthlings“ hefst á umfjöllun um stöðu þekkingar á Mars og hvað rannsóknarleiðangrar hafa afhjúpað. Þá tekur við umfjöllun um þær mýmörgu áskoranir sem geimfarar stæðu frammi fyrir á rauðu plánetunni og ýmsar sviðsmyndir skoðaðar um landnám manna á Mars frá félagslegu, læknisfræðilegu, hagfræðilegu, siðferðislegu og pólitísku sjónarhorni. Hópur sextíu evrópskra sérfræðinga í reikistjörnufræði, jarðfræði, líffræði, læknisfræði, heimspeki, lögfræði og hagfræði skrifuðu bókina „Mars and the Earthlings“, auk framlags frá geimförum og höfundum vísindaskáldsagna.
Miðvikudaginn 2. júlí, kl. 21:15: Vísindi og vísindaskáldskapur mætast. Rithöfundurinn og vísindamaðurinn Julie Nováková stýrir pallborðsumræðum í Hörpu um samband vísinda og vísindaskáldskapar. Rætt verður um áhrifin sem uppgötvanir í stjörnulíffræði hafa vísindaskáldskap og kvikmyndir sem sýnir glögglega hvernig sköpun og rannsóknir hafa áhrif hvert á annað. Rithöfundurinn Hildur Knútsdóttir tekur þátt í umræðunum.
30. júní til 10. júlí, mánudaga til föstudaga frá 08:00-17:00: „Caves in the Sky“ í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. Sýningin „Caves in the Sky“ eftir stjörnulíffræðinginn Michele Maris verður opin gestum og gangandi. Í henni er ljósi varpað á tengslin milli hellarannsókna og stjörnulíffræði og helstu viðfangsefni beggja greina. Kynntar eru uppgötvanir á hugsanlegum hraunhellum á tunglinu og Mars og hvort unnt sé að kanna þá og nýta í framtíðinni. Í sýningunni er sýnt hvernig geimfarar æfa í hellum á Jörðinni og búa sig fyrir geimferðir. Sýningin endar á vangaveltum um nauðsyn þess að varðveita og vernda svo viðkvæmt umhverfi, bæði neðanjarðar og í geimnum
BEACON 2025 er einstakt tækifæri til að setja Ísland í brennidepil evrópskra rannsókna í stjörnulíffræði. Stjörnulíffræði sameinar undir einum hatti einhverjar forvitnilegustu fræðigreinar samtímans, eins og líffræði, efnafræði, eðlisfræði, jarðfræði og stjörnufræði. Markmiðið er að leita svara við einni elstu og dýpstu spurningu mannkynsins: Erum við ein í alheiminum?
Sævar Helgi Bragason
Sími: +3548961984
Tölvupóstur: saevarhb@gmail.com
Wolf Geppert
Sími: +467235691155
Tölvupóstur: wgeppert@fysik.su.se
Sævar Helgi Bragason er vísindamiðlari, fyrirlesari, rithöfundur, þáttastjórnandi og eigandi og ritstjóri icelandatnight.is og solmyrkvi2026.is.